Hljómskálagarður er kjörinn fyrir frisbígolfvöll enda vellir fyrir þessa vinsælu íþrótt yfirleitt settir upp í svipaða skrúðgarða á Norðurlöndum. Þetta myndi auka lífið í Hljómskálagarðinum og gera hann enn skemmtilegri fyrir fjölskyldur og vinahópa. Nánast allir geta spilað frisbígolf, óháð kyni eða aldri auk þess sem frítt er að spila á völlunum og búnaður (frisbídiskur) er mjög ódýr.
Frábær hugmynd að setja upp völl í Hljómskálagarðinn. Það væri sniðugt að setja hann upp eins og völlinn á Hamrakotstúni á Akureyri. Þæginlegan fyrir almenning, það er mikil aðsókn á völlinn á Klambratúni og völlur í Hljómskálagarðinum ætti að létta aðeins á Klambratúninu.
Þeir vellir sem settir hafa verið upp í Reykjavík hafa slegið í gegn og mikil eftirspurn er eftir völlum í öll hverfi borgarinnar. Holl hreyfing og útivera fylgir þessu sporti og hægt er að spila frisbígolf í öllum veðrum, allan ársins hring. Það er líka mikill kostur hversu ódýrt þetta er, bæði fyrir spilarann en einnig Reykjavíkurborg. Það vantar völl í miðbæinn og nálægt vesturbænum og er Hljómskálagarðurinn mjög vel staðsettur.
Það er nú þegar frisbígolfvöllur á Klambratúni. Í Hljómskálagarðinum eru oft börn að leik og á sumrin er oft margt fólk þar. Það eru einnig fuglar sem búa þar og frisbígolfvöllur gæti valdið slysum á fólki og fuglum.
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation