Hvað viltu láta gera? Merkja betur gömlu þjóðleiðina / póstleiðina í Esjuhlíðum, með stikum eins og eru á öðrum gönguleiðum, þar sem stikurnar sjást vel úr fjarlægð. (sbr. merktar gönguleiðir í Mosfellsbæ). Hvers vegna viltu láta gera það? Leiðin er víða óljós í dag, en svæðið og útsýnið er fagurt. Þjóðleiðin milli Blikdalsár og útialtars við Esjuberg (um 7 km leið) er tenging milli svo margra fallegra svæða okkar Kjalnesinga. Til að mynda er á svæðinu milli Skrauthóla og Esjubergs heilmikill náttúrulegur blómagarður. Sé t.d. fyrir mér þarna útivistarhlaup/göngur og viðburði, svo sem náttúruskoðunarferðir, sögu- og fræðsluferðir.
Þjóðleiðin/ póstleiðin gamla er minjar um liðna samgönguhætti og vert að halda sögu hennar á lofti ekki síst nú þegar verið er að leggja nýjan Vesturlandsveg. Þarna má sjá dæmi um breytta tíma í samgöngumálum sem snertir sögu Kjalarness. Þessi hugmynd býður upp á marga möguleika, þ.e. útivist, hreyfingu, fræðslu um náttúruna, fuglalífið, sögustaði, örnefni ofl. Esjan er fallegt fjall úr fjarlægð en er enn fallegri í nálægð.
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation